154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

bankasala og traust á fjármálakerfinu.

[15:17]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir athyglisvert svar sem mér finnst nú ekki alveg ríma við það sem lagt er upp með í frumvarpinu. En virkt samtal við almenning um fjármálakerfi eftir hrun, líkt og lagt er til í hvítbókinni, hefur ekki farið fram og ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji slíkt samtal ekki mikilvægt áður en gengið er áfram með sölu á fleiri hlutum ríkisins í fjármálakerfinu. Fyrir síðustu sölu voru aðeins 23,5% hlynnt sölunni og 56% alfarið á móti sölunni á Íslandsbanka. Frumvarpið um næstu sölu gerir ráð fyrir að lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum falli úr gildi en þar er fjallað um skyldur og hlutverk Bankasýslu ríkisins en sambærileg ákvæði er ekki að finna í frumvarpinu um fyrirhugaða sölu. Getur hæstv. ráðherra ekki tekið undir það sjónarmið að skilgreina þurfi hlutverk og ábyrgð ráðherra og annarra þeirra sem hugmyndin er að komi að útboðinu þannig að enginn vafi leiki á hlutverki og ábyrgð? (Forseti hringir.) Getur hæstv. ráðherra tekið undir að einmitt það skipti máli til að auka traust á söluferlinu?